Ég heilsa yður, lesandi góður. Hér verður af andagift og innfjálgi höfðað til samvisku yðar og betri vitundar. Yður verður stillt upp við vegg og þér munuð sjá yður tilneydda til að taka siðferðilega afstöðu í erfiðum álitamálum samtíðarinnar. Þér munuð taka þroskakippi, yður mun verða ómótt, þér munuð finna ómótstæðilega löngun til að kveða yður hljóðs og predika sannleikann. Á almannafæri munuð þér klifra upp á kassa undan handsápu og hrópa tærum rómi hins hjartahreina. Hönd í hönd munum vér feta einstigi sannleika, fegurðar og mannræktar. Hjörtu vor munu slá í takt og vér munum, hver með öðrum, neyta fæðubótarefna sálarinnar og anabólískra stera siðferðisins, til að verða massaðir af mannviti. Af óaðfinnanlegri kurteisi og stimamýkt munum vér þeyta rjóma umræðunnar og sletta honum á pönnsur miðilsins til að meðbræður vorir fái nært sig sætabrauði sannleikans. Mannasiðum vorum og óeigingirni mun verða við brugðið, vér munum verða öðrum fyrirmynd fyrir sakir sannleiksástar vorrar og í fölsvalausri gleði og þökk munum vér hefja ljós vor á ljósastikum mæginnar til að þeir sem blindir eru öðlist skýra sýn hinna uppljómuðu. Sameinaður bjarmi mannvits vors og innblásinnar visku mun verða leiðarhnoða, já, ég segi pólstjarna þeirra hinna villuráfandi. Vér munum verða hugfró hins undirokaða, von hins þjáða og uppörvun hins beygða, en horn í síðu hins lævísra og ásteitingarsteinn hins undirförula.
Flokkur: Tölvur og tækni | 14.2.2007 | 21:09 (breytt kl. 21:55) | Facebook
Athugasemdir
Þetta var svo upptrompaður inngangur að ég varð allt í einu tilbúinn til að ganga í dauðann fyrir land og þjóð. Svo þegar betur var að gáð, þá sá ég að þetta var bara sápukúla. Svona eins og Forsætisráðherrann og Forsetinn blása á áramótum.
Velkominn í bloggtjörnina félagi.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.2.2007 kl. 00:34
Kæri Mörður,
til hamingju með nýja bloggsíðu. Ég hlakka til að lesa pistla þína, og geri ráð fyrir að líf mitt muni breytast til batnaðar núna þegar þú ert farinn að blogga.
Með bestu kveðju,
Margrét Valdimarsdóttir
Margrét Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 11:41
Svo merkilegt sem það nú er að þá nennti ég ekki að lesa allan fyrsta pistilinn?? En velkominn á blog.is og bíttu í ........
Baldvin Jónsson, 25.2.2007 kl. 17:54
ok ok, komst í gegnum þessa glæsilegu skrif, þennan fagra úrdrátt úr Íslensku orðabókinni í annarri tilraun.
Mörður, þú ert einfaldlega snillingur
Baldvin Jónsson, 25.2.2007 kl. 20:30
Það er mannvitsbrekka,ennið Marðar. Frú Sigríður er fjarri góðu gamni
Bára (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.