FRAMSAL VALDS TIL SKATTLAGNINGAR Á ÍSLANDI

Íslendingar hafa í raun framselt skattlagningarvald í hendur erlendu stórfyrirtæki. Því ástandi er viðhaldið í gegnum okkar eigið menntakerfi. Íslenska ríkið menntar þegna sína í notkun framleiðsluvara þessa tiltekna fyrirtækis og kaupir svo af því hugbúnað í stórum stíl fyrir stofnanir sínar og rekstur. Skattgreiðendur greiða fyrir hugbúnað þennan hundruð eða þúsundir milljóna króna í leyfisgjöld á hverju ári, og þau leyfisgjöld renna beint til Bandaríkjanna. Til dæmis keyra nær allar notendatölvur í eigu ríkis og sveitarfélaga stýrirkerfi sem þetta fyrirtæki selur. Einnig er næstum eingöngu notast við skrifstofuvöndul þess hjá hinu opinbera. Fyrirtækið sem hér um ræðir heitir Microsoft inc., stýrikerfið heitir Windows og skrifstofuvöndullinn Office.

Frjáls hugbúnaður ber af

Þessi sérkennilega staða er uppi, þrátt fyrir að fyrir hendi séu framúrskarandi valkostir, t.d. stýrikerfi og skrifstofuvöndlar sem eru ókeypis hvað varðar leyfisgjöld og standast frameiðsluvörum Microsoft inc. fullkomlega snúning. Hér er um að ræða svo kallaðan Frjálsan Hugbúnað., [e. Free Software] Þar má til dæmis nefna Linux stýrikerfi, Firefox vefskoðara og OpenOffice skrifstofuvöndulinn. Þessi hugbúnaður er aðgengilegur öllum á netinu og hefur, öfugt við hugbúnað Microsoft inc., frábærlega gott orðspor hvað varðar öryggi. Þú færð engan vírus á Linux stýrikerfið þitt. Það er heldur engin hætta á að nokkurt fyrirtæki neyði þig til að borga eina krónu fyrir að fá að hala niður nýjustu uppfærslur og viðbætur fyrir kerfið. Þúsundir annarra afburðagóðra forrita eru auk þess aðgengileg og ókeypis, öllum frjáls, Frjáls Hugbúnaður.

Hvernig í ósköpunum stendur á því, að fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eru að borga fúlgur fjár til bandarísks stórfyrirtækis á hverju ári þegar það er alger óþarfi?

Duglegir sölumenn hjá Microsoft

Þetta furðulega ástand, þar sem hið opinbera og menntakerfið hafa tekið höndum saman við eitt fyrirtæki til að viðhalda einokunarstöðu, skýrist að miklu leyti af því að Microsoft inc. hefur á að skipa óvígum her markaðs- og auglýsingasérfræðinga. Þeim hefur tekist að fá fólk til að trúa því að kunnátta í notkun framleiðsluafurða Microsoft inc. jafngildi almennri tölvukunnáttu og ekki sé um aðra raunhæfa valkosti að ræða. Þannig er oft sagt, að manneskja sem getur fótað sig í umhverfi Windows stýrikerfisins og notað Word, Excel og Powerpoint "kunni á tölvur". Þetta er eðlilegt, þegar þess er gætt að í skólum landsins er svo til einungis kennt á afurðir Microsoft inc., allt frá grunnskólum og upp úr. Þar liggur hundurinn grafinn. Í menntakerfinu.

Duglegir innheimtumenn hjá Microsoft

Allir borga fyrir afnotin af hugbúnaði Microsoft inc, jafnvel skólarnir sem notaðir eru til að viðhalda einokunaraðstöðunni. Það er auðvitað draumastaða hvers fyrirtækis: Skólarnir borga fyrir að fá að kenna nemendunum að nota eingöngu vörur Microsoft inc. Og ef þú heldur að þú hafir fengið Windows ókeypist með heimilistölvunni þinni þá vil ég upplýsa þig um að það er alger misskilningur. Þú borgaðir hærra verð fyrir vélina vegna þessa að Windows fylgdi með. Varstu annars nokkuð spurð/ur hvort þú vildir Windows eða eitthvað annað stýrikerfi þegar þú keyptir vélina?

Framsal skattlagningarvalds


Við blasir, að íslenska ríkið tekur þátt í að viðhalda einokunaraðstöðu bandarísks risafyrirtækis með því að mennta þegna sína nær eingöngu í notkun framleiðsluvara Microsoft inc. svo og með því að ganga undan með slæmu fordæmi og nota svo til eingöngu vörur fyrirtækisins, án þess að huga að öðrum valkostum. Afleiðingin er sú að íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eru í raun neydd til að reiða fram milljarða á hverju ári til þessa erlenda fyrirtækjarisa fyrir hugbúnað sem hægt er að fá jafn góðan og betri án þess að borga krónu í leyfisgjöld. Þetta jafngildir framsali skattlagningarvalds og er algjörlega óviðunandi. Þetta er ekki síst nöturlegt í ljósi þess að framboð á frjálsum hugbúnaði er geysimikið og hugbúnaðurinn af framúrskarandi gæðum.

Ódýrari og betri kostir

Ég hvet því íslensk stjórnvöld til að endurskoða stefnu sína í upplýsingatækni og taka í notkun frjálsan hugbúnað í stofnunum sínum, fyrirtækjum og ekki síst í skólunum og mynda með því mótvægi við stórhættulega einokunarstöðu Microsoft inc. Stöðu sem Microsoft inc. hefur hvað eftir annað misnotað á ólöglegan hátt víða um heim og hlotið dóma, sektir og áminnningar fyrir. Á sama hátt hvet ég neytendur til að prófa frjálsan hugbúnað, byrja t.d. á Firefox vefskoðaranum góða. Sérstaklega er ástæða til að hvetja íslensk fyrirtæki til að skoða kosti Frjáls Hugbúnaðar, sem er bæði ódýrari og öruggari hugbúnaður en sá sem mörg þeirra eru nú að borga stórfé til útlanda fyrir að fá að nota.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Góður pistill. Ef ég fengi að ráða væri Linux sett upp í öllum skólum landsins og krökkunum kennt á það ... það væri skynsamlegt bara upp á sparnaðinn einn og sér *Andvarp*

Þarfagreinir, 27.3.2007 kl. 12:25

2 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Snilldar pistill !

Rúnar Haukur Ingimarsson, 27.3.2007 kl. 14:04

3 identicon

Fínasti pistill. Fullt af góðum punktum í honum.

Hins vegar verð ég að koma með nokkrar ábendingar:

  1. Mér finnst þú gera aðeins of mikið úr kostnaði menntastofnana við kaup á Microsoft hugbúnaði. Eins og þú bendir réttilega á eru sölumenn þeirra stórsnjallir og löngu búnir að koma auga á þann hagnað sem af því hlýst að selja slíkum stofnunum þennan hugbúnað á slikk. Ég held því (án þess að ég geti svarið fyrir það) að íslenskar menntastofnanir séu ekki að borga mikið fyrir þennan hugbúnað en eftir stendur að fólk sem síðan fer út á atvinnumarkaðinn er afskaplega "bias" í áttina að hugbúnaði frá þeim.
  2. Því miður verður að segjast alveg eins og er að frjáls hugbúnaður stenst ekki samanburð við hugbúnað sem framleiddur er innan veggja fyrirtækja að öllu leiti. Mjög gott dæmi um þetta er OpenOffice. Töflureiknirinn, ritvinnslan og kynningarforritið (OO Presentation) nær hreinlega ekki þeim þægindum í notkun og MS tólin. Dæmi um þetta er t.d. sjálfvirk útfylling á formúlum í töflureiknunum (þegar formúlur eru afritaðar), að nota hljóð í kynningarforritunum og "auto completion" fídusinn í ritvinnsluforritunum. Auðvitað eru einhverjir sem segja að þetta sé ekki rétt hjá mér en ég er nærri viss um að ef þú settir byrjanda fyrir framan þessa tvo pakka án þess að viðkomandi hefði nokkurntíma kynnst svona tólum myndi sá hinn sami velja MS pakkann. Það er hægt að skýla sér á bak við það að OO hafi ekki sama fjármagn til að þróa sínar lausnir eins og MS en það bara þýðir ekkert. Því verður ekki breytt og það þýðir ekki að velta sér upp úr sjálfsvorkun.

Þess vegna er ég sammála að íslenska ríkið þurfi að taka sig saman í andlitinu og hreinlega skikka skólana til að nota þessar frjálsu lausnir því þó að þær séu kannski örlítið klúðurslegri í notkun að sumu leiti eru þær fyllilega nægjanlegar til að þjóna þeim tilgangi sem grunn- og framhaldsskólanám gerir til þeirra.

Stefán Freyr (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband