Heilagur IGNUcius

Blessuð sé tölva þín, barnið mitt.Þessi fallegi maður heitir Richard Stallman. Hann er ekki bara fallegur að utan, fegurð hans hið innra er ekki síður björt og skær. Hann er dýrlingur og prestur Emacs söfnuðarins, sem kenndur er við Emacs ritilinn sem Stallman forritaði ungur. Richard Stallman er Heilagur IGNUcius. Trúarjátning  Emacs kirkjunnar hljómar svofelldlega:

"Ekkert er kerfi nema GNU og Linux er einn af kjörnum þess"

Til þess að ganga í Emacs söfnuðinn þarf að fara með trúarjátninguna þrisvar.

Trúmenn geta átt von á verulegum og undraskjótum frama innan söfnuðarins. Til að fá dýrlingsnafnbót þarf lifa lífi hreinleika, sem þýðir ekki skírlífi (feginsandvörp hljóma), heldur að hafa á tölvu sinni stýrikerfi sem er Frjáls hugbúnaður. GNU/Linux er gott dæmi um slíkt stýrikerfi. Síðan ber  dýrlingi að halda tölvunni í standi hreinleika með því að innsetja aldrei nokkurn hugbúnað sem ekki er Frjáls.  

Gakktu í Emacs söfnuðinn! Einnig þú getur orðið dýrlingur!


Því hefur stundum verið haldið fram að Heilagur IGNUcius sé með gamlan tölvudisk á hausnum á mynd þeirri, er hér fylgir, en það er lygi! Þetta er enginn tölvudiskur, þetta er geislabaugur. Hann var reyndar tölvudiskur í fyrra lífi. Því miður liggur ekki fyrir úr hvers konar tölvu diskurinn er upprunalega, eða hvaða gögn hann geymdi, en eitt er víst: Á honum er alls engan ófrjálsan hugbúnað að finna.

Auk dýrlinga býður Emacs kirkjan upp á Sálm: Frjálsa hugbúnaðarlagið. Kirkjan býður enn  sem komið er ekki upp á neina guði. Hér er lagið flutt af engum öðrum en Helögum IGNUciusi.

Hér er að finna hin eldfornu guðspöll Emacs kirkunnar, sem safnað var fyrir óralöngu, löngu áður en nokkur maður hlaut dýrlingsnafnbót.

Heilagur IGNUcius segir:"Sumum er óskiljanlegt að persóna Heilags IGNUciusar er aðferð Heilags IGNUciusar við að forðast að taka sjálfan sig of hátíðlega"

Aðvörun: Að taka Emacs kirkjuna (eða aðrar kirkjur) of hátíðlega getur reynst hættulegt heilsunni.

FRAMSAL VALDS TIL SKATTLAGNINGAR Á ÍSLANDI

Íslendingar hafa í raun framselt skattlagningarvald í hendur erlendu stórfyrirtæki. Því ástandi er viðhaldið í gegnum okkar eigið menntakerfi. Íslenska ríkið menntar þegna sína í notkun framleiðsluvara þessa tiltekna fyrirtækis og kaupir svo af því hugbúnað í stórum stíl fyrir stofnanir sínar og rekstur. Skattgreiðendur greiða fyrir hugbúnað þennan hundruð eða þúsundir milljóna króna í leyfisgjöld á hverju ári, og þau leyfisgjöld renna beint til Bandaríkjanna. Til dæmis keyra nær allar notendatölvur í eigu ríkis og sveitarfélaga stýrirkerfi sem þetta fyrirtæki selur. Einnig er næstum eingöngu notast við skrifstofuvöndul þess hjá hinu opinbera. Fyrirtækið sem hér um ræðir heitir Microsoft inc., stýrikerfið heitir Windows og skrifstofuvöndullinn Office.

Frjáls hugbúnaður ber af

Þessi sérkennilega staða er uppi, þrátt fyrir að fyrir hendi séu framúrskarandi valkostir, t.d. stýrikerfi og skrifstofuvöndlar sem eru ókeypis hvað varðar leyfisgjöld og standast frameiðsluvörum Microsoft inc. fullkomlega snúning. Hér er um að ræða svo kallaðan Frjálsan Hugbúnað., [e. Free Software] Þar má til dæmis nefna Linux stýrikerfi, Firefox vefskoðara og OpenOffice skrifstofuvöndulinn. Þessi hugbúnaður er aðgengilegur öllum á netinu og hefur, öfugt við hugbúnað Microsoft inc., frábærlega gott orðspor hvað varðar öryggi. Þú færð engan vírus á Linux stýrikerfið þitt. Það er heldur engin hætta á að nokkurt fyrirtæki neyði þig til að borga eina krónu fyrir að fá að hala niður nýjustu uppfærslur og viðbætur fyrir kerfið. Þúsundir annarra afburðagóðra forrita eru auk þess aðgengileg og ókeypis, öllum frjáls, Frjáls Hugbúnaður.

Hvernig í ósköpunum stendur á því, að fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eru að borga fúlgur fjár til bandarísks stórfyrirtækis á hverju ári þegar það er alger óþarfi?

Duglegir sölumenn hjá Microsoft

Þetta furðulega ástand, þar sem hið opinbera og menntakerfið hafa tekið höndum saman við eitt fyrirtæki til að viðhalda einokunarstöðu, skýrist að miklu leyti af því að Microsoft inc. hefur á að skipa óvígum her markaðs- og auglýsingasérfræðinga. Þeim hefur tekist að fá fólk til að trúa því að kunnátta í notkun framleiðsluafurða Microsoft inc. jafngildi almennri tölvukunnáttu og ekki sé um aðra raunhæfa valkosti að ræða. Þannig er oft sagt, að manneskja sem getur fótað sig í umhverfi Windows stýrikerfisins og notað Word, Excel og Powerpoint "kunni á tölvur". Þetta er eðlilegt, þegar þess er gætt að í skólum landsins er svo til einungis kennt á afurðir Microsoft inc., allt frá grunnskólum og upp úr. Þar liggur hundurinn grafinn. Í menntakerfinu.

Duglegir innheimtumenn hjá Microsoft

Allir borga fyrir afnotin af hugbúnaði Microsoft inc, jafnvel skólarnir sem notaðir eru til að viðhalda einokunaraðstöðunni. Það er auðvitað draumastaða hvers fyrirtækis: Skólarnir borga fyrir að fá að kenna nemendunum að nota eingöngu vörur Microsoft inc. Og ef þú heldur að þú hafir fengið Windows ókeypist með heimilistölvunni þinni þá vil ég upplýsa þig um að það er alger misskilningur. Þú borgaðir hærra verð fyrir vélina vegna þessa að Windows fylgdi með. Varstu annars nokkuð spurð/ur hvort þú vildir Windows eða eitthvað annað stýrikerfi þegar þú keyptir vélina?

Framsal skattlagningarvalds


Við blasir, að íslenska ríkið tekur þátt í að viðhalda einokunaraðstöðu bandarísks risafyrirtækis með því að mennta þegna sína nær eingöngu í notkun framleiðsluvara Microsoft inc. svo og með því að ganga undan með slæmu fordæmi og nota svo til eingöngu vörur fyrirtækisins, án þess að huga að öðrum valkostum. Afleiðingin er sú að íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eru í raun neydd til að reiða fram milljarða á hverju ári til þessa erlenda fyrirtækjarisa fyrir hugbúnað sem hægt er að fá jafn góðan og betri án þess að borga krónu í leyfisgjöld. Þetta jafngildir framsali skattlagningarvalds og er algjörlega óviðunandi. Þetta er ekki síst nöturlegt í ljósi þess að framboð á frjálsum hugbúnaði er geysimikið og hugbúnaðurinn af framúrskarandi gæðum.

Ódýrari og betri kostir

Ég hvet því íslensk stjórnvöld til að endurskoða stefnu sína í upplýsingatækni og taka í notkun frjálsan hugbúnað í stofnunum sínum, fyrirtækjum og ekki síst í skólunum og mynda með því mótvægi við stórhættulega einokunarstöðu Microsoft inc. Stöðu sem Microsoft inc. hefur hvað eftir annað misnotað á ólöglegan hátt víða um heim og hlotið dóma, sektir og áminnningar fyrir. Á sama hátt hvet ég neytendur til að prófa frjálsan hugbúnað, byrja t.d. á Firefox vefskoðaranum góða. Sérstaklega er ástæða til að hvetja íslensk fyrirtæki til að skoða kosti Frjáls Hugbúnaðar, sem er bæði ódýrari og öruggari hugbúnaður en sá sem mörg þeirra eru nú að borga stórfé til útlanda fyrir að fá að nota.

Hvað er GNU/Linux?

gnu-head-bannerTæknimenntaðir og margsjóaðir tölvumenn reka upp ramakvein vegna skilningsleysis fréttamanns mbl.is á frétt sem hann hefur skrifað upp úr efni frá AP fréttastofunni. Upphaflega fyrirsögnin var eitthvað í líkingu við þetta:  "Linux 5 komið út". Fyrirsögn þessi, sem nú er búið að breyta, fór ákaflega í taugarnar á fólki sem notar og elskar GNU/Linux stýrikerfi. Einnig var talað um Linus Torvalds sem "höfund Linux". Ég bókstaflega heyrði tanngnístran GNU/Linux fólks þegar ég las þetta.

 Hvers vegna pirrar þessi fréttamennska áhugafólk um GNU/Linux svona? Jú, það er vegna þess, að Linux (sem oftast er stytting á GNU/Linux) er Fjáls Hugbúnaður og til í mjög mörgum útgáfum, svo kölluðum dreifingum (e. distributions, distros). Red Hat Enterprise Linux er ein fjölmargra slíkra dreifinga og hvorki sú stærsta né sú útbreiddasta. Aðrar dreifingar sem nefna má eru Debian, Ubuntu, Gentoo, SUSE, Centos og þannig áfram að spýjustokkum.

Þegar fréttamaðurinn segir að út sé komið "Linux 5", og þakkar það framtak Red Hat fyrirtækinu, upplifa ástríðufullir notendur hinna ýmsu GNU/Linux útgáfa að verið sé að eigna Red Hat fyrirtækinu allan heiður af GNU/Linux almennt. Heiður sem á ekki að falla neinu einstöku fyrirtæki eða einstaklingi í skaut. Það er algerlega fráleitt að tala um að einhver einstaklingur sé höfundur GNU/Linux stýrikerfisins eða að eitt fyrirtæki hafi einhverskonar yfirráð yfir Linux, eins og Microsoft hefur yfir Windows.

 Microsoft er einokunarfyrirtæki sem hefur þann tilgang að græða á Windows stýrikerfi sínu. GNU/Linux er hins vegar samstarf velviljaðra einstaklinga og fyrirtæja sem vilja færa stjórn tölvunnar aftur í hendur notandans, úr höndum fyrirtækja eins og Microsoft  og Apple sem kjósa frekar að þjóna hagsmunasamtökum plötu- og kvikmyndaútgefenda en hagsmunum viðskiptavina sinna. 

Linux, sem í þessu samhengi þýðir GNU stýrikerfi með Linux kjarna, er afrakstur samstarfs ótölulegs fjölda fólks sem hefur lagt fram þúsundir mannára af vinnu við kerfið. Linus Torvalds er sannarlega framarlega í þessum flokki, alveg eins og Richard Stallman, Alan Cox og margir, margir fleiri. Linux er Frjáls Hugbúnaður, aðgengilegt öllum, ókeypis, stöðugt,  annálað fyrir öryggi og byggt á fagurri hugsjón frelsis, gagnkvæmrar hjálpsemi og siðmenntaðs viðskiptasiðferðis.

Grundvallaratriði þegar rætt eru um Frjálsan Hugbúnað, eins og GNU/Linux er hugtakið frelsi. Höfundar frjáls hugbúnaðar hafa engan áhuga á að segja notendum hugbúnaðarins fyrir verkum, hvað þeir mega og mega ekki gera við hugbúnaðinn. Microsoft og Apple leggja endalausar lykkjur á leið sína til smíða fallega, gyllta hlekki til að passa upp á að notendur Windows og MacOS steli nú örugglega ekki frá Hollývúdd stúdíóum og plötuútgefendum og öðrum sem skipta máli að mati Microsoft og Apple. Þarfir notandans eru settar aftar í forgang en frekja fjárplógsmanna í Hollívúdd.

Í tilviki GNU/Linux og Frjáls Hugbúnaðar er aðeins tekið tillit til hagsmuna og frelsis notanda hugbúnaðarins. Þinna hagsmuna og þíns frelsis!

Þess vegna pirrar það þá, sem þekkja yfirburði GNU/Linux að sjá sitt elskaða stýrikerfi sett í samhengi sem gerir það að einhverju leyti líkt ófögnuði eins og Windows ellegar MacOS.

Það þarf  að upplýsa fréttamenn mbl.is og aðra áhugasama  betur um Frjálsan Hugbúnað og GNU/Linux, þó ekki væri nema til þess að hlífa grátgjörnu GNU/LInux fólki við svona voðalegum rangfærslum sem eyðileggja fyrir þeim dagana. Ég mun reyna að leggja fram minn skerf til uppfræðslunnar á þessu bloggi.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávarp

Ég heilsa yður, lesandi góður. Hér verður af andagift og innfjálgi höfðað til samvisku yðar og betri vitundar. Yður verður stillt upp við vegg og þér munuð sjá yður tilneydda til að taka siðferðilega afstöðu í erfiðum álitamálum samtíðarinnar.  Þér munuð taka þroskakippi, yður mun verða ómótt, þér munuð finna ómótstæðilega löngun til að kveða yður hljóðs og predika sannleikann. Á almannafæri munuð þér klifra upp á kassa undan handsápu og hrópa tærum rómi hins hjartahreina.  Hönd í hönd munum vér feta einstigi sannleika, fegurðar og mannræktar. Hjörtu vor munu slá í takt og vér munum, hver með öðrum, neyta fæðubótarefna sálarinnar og anabólískra stera siðferðisins, til að verða massaðir af mannviti. Af óaðfinnanlegri kurteisi og stimamýkt munum vér þeyta rjóma umræðunnar og sletta honum á pönnsur miðilsins til að meðbræður vorir fái nært sig sætabrauði sannleikans. Mannasiðum vorum og óeigingirni mun verða við brugðið, vér munum verða öðrum fyrirmynd fyrir sakir sannleiksástar vorrar og í fölsvalausri gleði og þökk munum vér hefja ljós vor á ljósastikum mæginnar til að þeir sem blindir eru öðlist skýra sýn hinna uppljómuðu. Sameinaður bjarmi mannvits vors og innblásinnar visku mun verða leiðarhnoða, já, ég segi pólstjarna þeirra hinna villuráfandi. Vér munum verða hugfró hins undirokaða, von hins þjáða og uppörvun hins beygða, en horn í síðu hins lævísra og ásteitingarsteinn hins undirförula. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband